Fyrir jólin kom bókin Next to Love eftir Ellen Feldman út í íslenskri þýðingu. Bókin heitir Næstum eins og ástin á íslensku. Ég var búin að sjá bókina og hugsa með mér að hún væri örugglega ágætis afþreying (en þó ekki meira en það) og að ég myndi sennilega kaupa hana í einhverju hallæri í sumar. Þegar ég var heima í leti- og leiðikasti eitt kvöldið fékk ég hins vegar þá hugdettu að kaupa bókina á frummálinu í Kindle sem og ég gerði.
Bókin fjallar um þrjár ungar konur, vinkonur, sem búa í smábæ í Bandaríkjunum á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Ungu konurnar þrjár eru allar nýgiftar ungum hermönnum sem hafa verið sendir til Evrópu.
Ég myndi ekki lýsa sögunni sem ástarsögum þessara kvenna. Sagan fjallar frekar um það hvað gerist eftir að þær að verða ástfangnar, eftir að þær gifta sig, eftir að þær eru skildar eftir einar - og eftir stríðið.
Sagan er frekar þung. Alls ekkert í léttmeti eins og ég hélt. Í sögunni er fjallað um hörmulega atburði. Stríð, nauðgun, sorgir, geðsjúkdóma, fordóma, mikil vonbrigði o.s.frv. Það tók þess vegna smá toll að lesa sig í gegnum hana. Feldman er sagnfræðingur og það er augljóst að hún hefur unnið nokkuð mikla heimildavinnu fyrir skriftirnar. Að mínu mati er sögulegi vinkillinn það besta við bókina.
Mér fannst bókin ekki slæm en samt ekki góð heldur. Kannski af því að ég hélt að hún yrði léttari.
Það sem ég saknaði helst var almennilegur endir. Mér fannst ég
ekki fá almennilegan endapunkt á sögur kvennanna þriggja.
Sem sagt, ekki lesa bókina nema þið séuð til í sorgir og átök án góðs endis.
No comments:
Post a Comment