Um daginn ég las ég bókina Beautiful Creatures. Bókin er sú fyrsta af fjórum um Lenu, sem er norn (eða reyndar "caster" eins og þau kalla það) og Ethan, sem er venjulegur strákur, a.m.k. svona við fyrstu sýn. Þau búa í smábænum Gatlin í suðurríkjum Bandaríkjanna (að mig minnir í Suður-Karólínu).
Sagan er sögð frá sjónarhorni Ethan. Þegar sagan hefst er hann orðinn frekar þreyttur á smábæjarlífinu. Hann hefur nýlega misst móður sína og er enn að vinna úr sorginni. Faðir hans tók andláti hennar vægast sagt mjög illa og hefur lokað sig af frá umheiminum - sem auðveldar Ethan heldur ekki lífið. Ethan gerir sitt besta til að falla inn í smábæjarlífið, þó að hann sé ekki hrifinn af því, og spilar körfubolta með vinsælustu strákunum í skólanum og felur áhuga sinn á bókum og umfangsmikinn lestur sem honum fylgir.
Allt breytist í lífi Ethan þegar Lena flytur í bæinn og byrjar í sama skóla og hann. Lena, sem hefur búið víða, þykir mjög skrýtin og ekki bætir úr skák að hún býr heima hjá frænda sínum sem er talinn mesti furðufugl bæjarins. Þrátt fyrir mikla andstöðu frá samfélaginu tekur Ethan upp vinskap við Lenu og þau ná mjög vel saman. Hann verður þó fljótt var við að ýmislegt skringilegt gerist í kringum hana. Áður en Ethan veit af hefst svo mjög furðuleg atburðarrás og lífinu sem hann þekkir er kollvarpað. Allt í einu eru leyndarmál, nornir, álög og jafnvel yfirnáttúruleg bókasöfn (!) eðlilegur partur af lífi hans.
Mér fannst sagan ágæt. Nokkuð spennandi og vel uppbyggð. Samband Lenu og Ethan er stundum frekar væmið en það er kannski ekki annað hægt - þetta er jú unglinga (young adult) ástarsaga. Endirinn er svo alls ekki of fyrirsjáanlegur. Það sem mér finnst verst við bókina er að hún sé hluti af fjórleik. Ég held að hún hefði alveg staðið fyrir sínu ein og stök - hún hefði kannski þurft að vera aðeins lengri en það hefði gengið upp. Mér finnst allar sögur sem ég les núna var hluti af þríleik eða fjórleik og er orðin þreytt á því.
Ástæðan fyrir því að mér datt í hug að lesa þessa bók er sú að ég sá sýnishorn úr samnefndri mynd sem búið er að gera eftir bókinni. Ég held að það eigi að byrja sýna myndina hér á landi um næstu helgi. Ég er að velta fyrir mér að sjá myndina líka - jafnvel bara til að geta pirrað mig á útfærslunni og ónauðsynlegum breytingum á söguþræðinum!
No comments:
Post a Comment