Thursday, February 7, 2013

Hringurinn

Ég fékk bókina Hringinn lánaða hjá systur minni um daginn. Höfundar Hringsins eru tveir og eru sænskir, þau Strandberg og Elfgren. Bókin var þýdd á íslensku fyrir þessi jól og ég held að hún sé sú fyrsta í þríleik (mér finnst að ég hafi heyrt eða lesið það einhvers staðar). Markhópur sögunnar er sennilega young adult (frekar en beinlínis unglingar) en ég setti það ekki fyrir mig - sem betur fer. 

Sagan fjallar um sex stúlkur. Þær eiga fátt sameiginlegt annað en að búa í sama smábænum í Svíþjóð og ganga í sama menntaskólann. Í upphafi sögunnar finnst einn nemandi í menntaskólanum átinn inn á salerni í skólanum. Það lítur út fyrir að hann hafi framið sjálfsmorð. Í kjölfar þess komast stúlkurnar mjög óvænt  að því að þær eru tengdar á ákveðinn  - yfirnáttúrulegan - hátt og jafnframt að samnemandi þeirra framdi alls ekkert sjálfsmorð. Stúlkurnar þurfa svo að taka höndum saman og berjast gegn óþekktu illu afli.

Mér fannst sagan mjög spennandi og vel uppbyggð. Bókin er 509 bls. en ég var samt enga stund að tæta hana í mig.

Það er eitt sérstaklega sem mér fannst mjög áhugavert við uppbyggingu sögunnar. Höfundarnir ákveða að láta fjórar af stúlkunum sex vera sögumenn til skiptis (ef ég man rétt). Tvær stúlknanna eru aldrei sögumenn. Maður fær sjónarmið þeirra því aldrei beint í æð. Þetta verður bæði til þess að maður verður tortrygginn gagnvart þeim tveim og jafnframt forvitinn um skoðanir þeirra og tilveru almennt.

Ég verð líka að taka fram að mér finnst þýðandi bókarinnar hafa unnið gott verk. Ég var sérstaklega ánægð með notkun orðsins "beturvitri" sem ég man ekki eftir að hafa séð áður á prenti en er sérlega skemmtilegt. Ég var ekki jafn ánægð með notkun orðsins "tónhlaða" (ipod eða mp3-spilari). Finnst það óþjált og auk þess man ég ekki til þess að hafa heyrt nokkurn mann nota það orð. Beturvitri verður fyrr í hvers manns tali en tónhlaða.

Góð bók sem ég mæli með fyrir alla sem fíla smá ævintýri og yfirnáttúruleg fyrirbæri.

No comments:

Post a Comment