Sunday, March 3, 2013

Jójó og Ósjálfrátt

Bókin Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur kom út fyrir jólin í fyrra (held ég). Ég greip hana með mér úr Eymundsson um daginn. Bæði var  hún á tilboði og ég var líka búin að heyra að hún væri góð. Það reyndist rétt. 

Sagan ber ekki mikið yfir sér í byrjun en henni vindur hratt og óvenjulega áfram. Ég myndi helst lýsa sögunni sem eintali söguhetjunnar Martin Montag - þar sem hann rifjar upp löngu liðna atburði og samtöl - sem jafnframt er uppgjör hans við fortíðina. Í byrjun áttaði ég ekki mig á því hvernig þessi brotakennda upprifjun Martins - sem virtist mjög tilviljunakennd - tengdist því sem var að gerast í "nútíma" Martins. Martin er læknir og í upphafi sögunnar hittir hann mann, með æxli, sem slær hann út af laginu. Maðurinn og æxlið minna hann á eitthvað - og það eitthvað er það sem kemur sögunni af stað. 

Mér fannst Jójó skemmtilega uppbyggð. Ég viðurkenni að ég var pirruð á henni í byrjun, skildi ekki af hverju höfundurinn var að leggja þessa brotakenndu upprifjun fyrir mig, en svo þegar tengingin varð skýr varð ég bæði mjög sátt og hrifin. Þolinmæði er dyggð.

Ég var hrifin af Jójó en ég er enn hrifnari af Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur - sem ég var að ljúka við rétt í þessu. Ég byrjaði á henni í gær og sagan hreinlega gleypti mig. Ég lifði mig alveg inn í líf aðalsögupersónunnar Eyju. Ég var farin að tala við hana í huganum, skamma hana, óska þess að hún færi nú að taka lífið í sínar eigin hendur og pirrast á stækjunni þegar hún reykti of mikið. 

Ósjálfrátt er bæði skáldskapur og sannleikur - hálfgerð sjálfsævisaga Auðar. Við sögu koma foreldrar Eyju (Auðar), ömmur og afar, langömmur, systkini, vinkonur, frænkur og bæði fyrrverandi  og framtíðareiginmenn. Sagan gerist ekki í tímaröð en Auður flakkar á milli fortíðar, nútíðar (sem þó er í fortíðinni) og framtíðar eftir hentugleika. Hún hlífir engum, lætur allt flakka, en maður veit samt aldrei hvað er skáldskapur og hvað ekki. Sagan er bæði mjög fyndin og sorgleg. Snjóflóðið á Flateyri er mjög áberandi í sögunni og sömuleiðis alkóhólismi og fíkn. Frænka söguhetjunnar Eyju, Skíðadrottningin, sem kemur mikið við sögu, er snillingur í að koma sér í vandræðalegar og fyndnar aðstæður. Þá er skondið þegar Eyja er skilin eftir ein hjá afa sínum, þjóðskáldinu, á kvennafrídeginum. Fyndnast fannst mér þó þegar Eyja fór á miðilsfund í Kaupmannahöfn.

Auður er, eins og flestir vita, barnabarn Halldórs Laxness. Allt frá því að ég fór og heimsótti Gljúfrastein fyrir rúmu ári síðan hef ég verið mjög áhugasöm, ekki um Halldór, heldur um Auði Sveinsdóttur, eiginkonu hans og ömmu Auðar. Það er eitthvað við sögu hennar sem situr í mér og ég hef oft velt því fyrir mér hvað fékk þessa hæfileikaríku konu til að "fórna" sér fyrir þennan mann. Eins og ég sagði áðan kemur amma Eyju (Auðar) við sögu í Ósjálfrátt - og raunar nokkuð mikið. Mun meira en skáldið sjálft. Amman er mjög viðkunnanlegur og notalegur karakter - akkúrat svona karakter sem maður myndi sjálfur vilja þekkja. Hún kemur fyrir sem sterk kona, alltaf reiðubúin að hjálpa, veita stuðning og góð ráð. Af sögunni má skilja að hún hafi sjálf valið sér þetta hlutskipti í lífinu og verið sátt við það.

Auður Jónsdóttir er rithöfundur sem mér hefur fundist vera ýmist eða. Ýmist frábær eða ég botna ekkert í henni. Fólkið í kjallaranum fannst mér stórkostleg bók. Tryggðarpant skildi ég ekki og það hrakti mig frá næstu bók Auðar, Vetrarsól. Með Ósjálfrátt er ég búin að taka hana aftur í sátt.

No comments:

Post a Comment