Friday, April 5, 2013

Fyrir Lísu

Ég var að klára Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Á bókarkápunni segir að sagan sé sjálfstætt framhald skáldsögunnar Jójó, sem ég skrifaði um hér, en ég get nú tæplega tekið undir það. Ég myndi frekar segja að sagan væri beint framhald Jójó, enda hefst sagan nánast á punktinum þar sem Jójó lauk. Ég get því ekki mælt með því að lesa þessa bók nema fyrir þá sem hafa lesið Jójó.

Fyrir Lísu segir frá því hvernig Martin Montag, þýskur krabbameinslæknir, loksins tekst á við það að hann var misnotaður sem barn. Martin virðist aldrei hafa ætlað sér að takast á við þetta með nokkrum hætti eða gera upp fortíðina. Það sem rekur Martin af stað er að hann áttar sig á því að maðurinn sem misnotaði hann hefur misnotað fleiri - og þeim vill hann hjálpa. Með aðstoð vinar síns og nafna býr Martin til áætlun um að klekkja á níðingnum. Í kjölfarið missir Martin alla stjórn á atvikum.

Á bókarkápunni er talað um að sagan sé allt í senn, reyfari, farsi og harmleikur. Þessa lýsingu á ég erfitt með. Mér finnst sagan ekki vera neitt af þessu. Fyrir það fyrsta, þó að fjallað sé um viðbjóðslega glæpi í sögu gerir það hana ekki að reyfara. Mér fannst sagan mjög oft kómísk eða spaugileg en alls ekki farsakennd (reyndar er eitt hálf farsakennt atriði þegar Martin fer og hittir sálgreinanda sem er með stofu í kjallara á kirkjugarðskapellu. Sálgreinandi þessi hefur þróað afar áhugaverða meðferð fyrir snertihamlaða sem endar í blindingsleik undir klassískri tónlist). Loks get ég ekki lýst sögunni sem harmleik þótt hún sé sorgleg og viðfangsefnið erfitt. Þó að það sé kannski einföldun, þá finnast mér bara sögur, sem bæði eru sorlegar og enda illa, vera harmleikir. Fyrir Lísu endar vel - a.m.k. eins og vel og hægt er m.v. viðfangsefnið.

Sagan er falleg að mörgu leyti sem er kannski furðulegt með hliðsjón af því hvert aðalumfjöllunarefnið er - barnaníð.  Bæði er texti Steinunnar fallegur og þá finnst mér hún virkilega góð í að búa til fallegar aðstæður í sögunni ef svo má segja. Martin er bæði mikill fagurkeri og sælkeri og Steinunn kemur því mjög vel til skila.

Þó að Fyrir Lísu sé góð bók þá fannst mér Jójó betri. Það er bara ein ástæða fyrir því - endirinn. Jójó fannst mér enda á áhrifamikinn hátt. Með því að Martin opnaði sig og vaknaði til vitundar um að það væru fleiri í sömu stöðu og hann. Fyrir Lísu hins vegar endar bara vel. Þótt ég sé oftast mikill aðdáandi góðs endis fannst mér hann ekki ganga nógu vel upp í Fyrir Lísu. Það vantaði eitthvað  aðeins meira.

No comments:

Post a Comment