Saturday, March 23, 2013

Brauð með súkkulaðibitum o.fl.

Þegar ég vaknaði í morgun þá mundi ég að í síðasta draum næturinnar hafði ég verið að baka brauð... sem varð auðvitað til þess að mig langaði í nýbakað brauð. Ég var með eina uppskrift í huga en þar sem ég átti ekki öll innihaldsefnin ákvað ég að aðlaga uppskriftina að því sem ég átti í ísskápnum. Útkoman er þessi.

Brauð með súkkulaðibitum o.fl.:
2 bollar hveiti, ríflega
1 bolli tröllahafrar (eða venjulegir hafrar)
1/2 bolli ljós púðursykur, ríflega
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill
1/2 tsk kardimommur
1/2 tsk salt
1/2 bolli saxaðar apríkósur og/eða döðlur (eða jafnvel saxaðar hnetur)
1/2 bolli grófsaxað súkkulaði
1 og 1/2 bolli súrmjólk
2 egg
55 g ósaltað smjör, brætt

1) Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál. Setjið súkkulaðið og apríkósurnar/döðlurnar síðast í blönduna - eftir að þið eruð búin að hræra hitt saman.

2) Blandið súrmjólk, eggjum og smjöri saman í meðalstórri skál og hrærið lauslega saman. Hellið blöndunni svo saman við þurrefnin og hrærið vel saman.

3) Setjið deigið annað hvort í smurt formkökuform (stórt) eða formkökuform hulið með bökunarpappír. Bakið brauðið í ca. 55 mínútur eða þangað til tannstöngull, sem stungið er í deigið, kemur hreinn út.


Brauðið var afskaplega gott, ylvolgt beint úr ofninum með þykku lagi af smjöri. Það var samt mjög erfitt að skera það á meðan það var heitt, þar sem það molnaði nokkuð (ég held að formið hafi verið of lítið hjá mér). Eftir því sem brauðið kældist varð auðveldara að skera það. Ég held að ég myndi ekki setja apríkósur í deigið næst þegar ég baka brauðið (frekar döðlur eða hnetur) en það var samt alls ekki vont að hafa þær.

 

Myndin hér að ofan sýnir hvernig ég borðaði brauðið - í molum með miklu smjöri.. namm.

No comments:

Post a Comment