Ég er búin að vera hræðilega ódugleg við að blogga undanfarið. Ég er samt búin að lesa mjög mikið (ég datt í smá "young adult" - fantasíu stuð og var varla viðræðuhæf í tvær vikur). Ég er líka búin að baka eitthvað en samt ekki jafn mikið og venjulega. Klassískt áramótaheit í gangi hérna megin (hollari matur + meiri hreyfing) og það hefur "smá" áhrif á bökunargleðina.
Þessi uppskrift er smá sárabót fyrir bloggleysið og er næstum í stíl við áramótaheitið. Ég tók smá áskorun um helgina - að baka LKL köku. Ég er ekki á þessum kúr sjálf, og stefni ekki á að fara á hann, en fannst þetta samt skemmtileg tilraun. Kakan er ekki fullkomin LKL kaka, enda er sykur í henni þótt það sé ekki hvítur sykur, en lengra var ég bara ekki tilbúin að fara. Mér fannst kakan góð og ég hugsa að hún sé fullkomin fyrir þá sem elska dökkt súkkulaði.
Súkkulaðikaka
án hveitis og hvíts sykurs
2/3 bolli ólífuolía
6 msk ósætt kakóduft
1/2 bolli heitt kaffi
2 tsk vanilludropar
1 og 1/2 bolli möndlumjöl
1/2 tsk matarsódi
Klípa af salti
1 bolli kókospálmasykur
3 stór egg (ég átti bara lítil egg svo ég
notaði fjögur)
1/2 bolli rjómi (ca.)
100 g 70% suðusúkkulaði
Möndluflögur (til skrauts)
1) Hitið ofninn í 170°C. Sníðið bökunarpappír
í botninn níu tommu springformi og smyrjið það með ólífuolíu.
2) Sigtið kakóið í litla skál og blandið svo
heitu kaffinu saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt. Hrærið
vanilludropunum saman við, setjið til hliðar og kælið aðeins.
3) Blandið möndlumjöli, matarsóda og klípu af
salti saman í annarri skál.
4) Setjið kókospálmasykur, ólífuolíu og egg í
hrærivélarskál og hrærið á miklum hraða í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er
orðin slétt og “fluffy”.
5) Minnkið hraðann á hrærivélinni og hellið
kakóblöndunni hægt og rólega saman við.
Stöðvið vélina og skrapið deigið niður af hliðum skálarinnar með sleikju.
6) Kveikið aftur á hrærivélinni og hafið hana
á litlum hraða. Bætið möndlumjölsblöndunni hægt og rólega saman við.
7) Slökkvið á hrærivélinni og skrapið deigið
aftur af hliðum skálarinnar og hrærið deigið aðeins saman með sleikju.
8) Hellið deiginu í formið og bakið í 40-45 mínútur. Hægt er að athuga hvort hún sé tilbúin með því að
stinga tannstöngli í hana. Ef hann kemur út nánast hreinn en með smá súkkulaði þá
er kakan tilbúin.
9) Kælið kökuna í forminu í 10 mínútur áður en
þið takið hana úr og látið hana kólna alveg.
10) Brytjið súkkulaðið í kubba og bræðið það saman við rjómann í potti
við meðalhita. Hellið yfir kökuna þegar blandan er orðin slétt og falleg. Ef
blandan er mjög fljótandi er best að leyfa henni að kólna aðeins áður en henni
er hellt yfir kökuna.
11) Skreytið með möndluflögum og borðið! Það er ekki verra að hafa léttþeyttan rjóma og/eða fersk ber með.
Eins og myndin hér fyrir ofan sýnir þá átti ég ekki í erfiðleikum með að háma þessa kökusneið í mig.