Sunday, February 23, 2014

Súkkulaðikaka án hveitis og hvíts sykurs


Ég er búin að vera hræðilega ódugleg við að blogga undanfarið. Ég er samt búin að lesa mjög mikið (ég datt í smá "young adult" - fantasíu stuð og var varla viðræðuhæf í tvær vikur). Ég er líka búin að baka eitthvað en samt ekki jafn mikið og venjulega. Klassískt áramótaheit í gangi hérna megin (hollari matur + meiri hreyfing) og það hefur "smá" áhrif á bökunargleðina.

Þessi uppskrift er smá sárabót fyrir bloggleysið og er næstum í stíl við áramótaheitið. Ég tók smá áskorun um helgina - að baka LKL köku. Ég er ekki á þessum kúr sjálf, og stefni ekki á að fara á hann, en fannst þetta samt skemmtileg tilraun. Kakan er ekki fullkomin LKL kaka, enda er sykur í henni þótt það sé ekki hvítur sykur, en lengra var ég bara ekki tilbúin að fara. Mér fannst kakan góð og ég hugsa að hún sé fullkomin fyrir þá sem elska dökkt súkkulaði.

Súkkulaðikaka án hveitis og hvíts sykurs
2/3 bolli ólífuolía
6 msk ósætt kakóduft
1/2 bolli heitt kaffi
2 tsk vanilludropar
1 og 1/2 bolli möndlumjöl
1/2 tsk matarsódi
Klípa af salti
1 bolli kókospálmasykur
3 stór egg (ég átti bara lítil egg svo ég notaði fjögur)

1/2 bolli rjómi (ca.)
100 g 70% suðusúkkulaði
Möndluflögur (til skrauts)

1) Hitið ofninn í 170°C. Sníðið bökunarpappír í botninn níu tommu springformi og smyrjið það með ólífuolíu.

2) Sigtið kakóið í litla skál og blandið svo heitu kaffinu saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt. Hrærið vanilludropunum saman við, setjið til hliðar og kælið aðeins.

3) Blandið möndlumjöli, matarsóda og klípu af salti saman í annarri skál.

4) Setjið kókospálmasykur, ólífuolíu og egg í hrærivélarskál og hrærið á miklum hraða í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er orðin slétt og “fluffy”.

5) Minnkið hraðann á hrærivélinni og hellið kakóblöndunni hægt og rólega saman við.  Stöðvið vélina og skrapið deigið niður af hliðum skálarinnar með sleikju.

6) Kveikið aftur á hrærivélinni og hafið hana á litlum hraða. Bætið möndlumjölsblöndunni hægt og rólega saman við.

7) Slökkvið á hrærivélinni og skrapið deigið aftur af hliðum skálarinnar og hrærið deigið aðeins saman með sleikju.

8) Hellið deiginu í formið og bakið í 40-45 mínútur. Hægt er að athuga hvort hún sé tilbúin með því að stinga tannstöngli í hana. Ef hann kemur út nánast hreinn en með smá súkkulaði þá er kakan tilbúin.

9) Kælið kökuna í forminu í 10 mínútur áður en þið takið hana úr og látið hana kólna alveg. 

10) Brytjið súkkulaðið í kubba og bræðið það saman við rjómann í potti við meðalhita. Hellið yfir kökuna þegar blandan er orðin slétt og falleg. Ef blandan er mjög fljótandi er best að leyfa henni að kólna aðeins áður en henni er hellt yfir kökuna. 


11) Skreytið með möndluflögum og borðið! Það er ekki verra að hafa léttþeyttan rjóma og/eða fersk ber með. 

Eins og myndin hér fyrir ofan sýnir þá átti ég ekki í erfiðleikum með að háma þessa kökusneið í mig.

Tuesday, January 14, 2014

Jólabókaflóðið

Jæja. Ég er búin að lesa sex bækur frá jólum og hef því miður ekki verið nægilega dugleg að punkta hjá mér hvað mér fannst um þær. Obbosí. Vegna þess ætla ég að leyfa mér að skrifa einn pistil og fjalla aðeins stuttlega um þær allar.

Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson: Ég er mikill aðdáandi Jóns Kalmans og hann olli mér ekki vonbrigðum með þessari bók. Fiskarnir hafa enga fætur er fjölskyldusaga. Hún gerist á þremur plönum; fyrir tíð aðalpersónunnar Ara, í fortíð Ara og í nútíð Ara. Mér fannst sérstaklega skemmtileg sagan sem gerist fyrir tíð Ara sem er saga afa hans og ömmu á Norðfirði. Fortíð Ara er einnig áhugaverð. Hann ólst upp í Keflavík og sambúð Keflvíkinga og hersins er mjög stormasöm - og þar með áhugaverð. 

Það kom mér á óvart hvað Fiskarnir hafa enga fætur er mikil kvennasaga. Konur eru oft fókus sögunnar og höfundur leggur mikið á sig til að koma þeirra sögum (og misrétti) á framfæri. Þetta er með feminískari bókum sem ég hef lesið þar sem höfundurinn er karlkyns. Textinn er fallegur og svo er Jón Kalman oft fyndinn. Endirinn er þannig að það hlýtur að koma framhald.


Skuggasund eftir Arnald Indriðason: Skuggasund er klassísk Arnaldarsaga. Ef þið eruð yfirleitt hrifin af Arnaldi þá finnst ykkur þetta góð bók. Ég er samt ekki sammála því að þetta sé besta bók Arnaldar - mitt uppáhald er ennþá Grafarþögn. Í Skuggasundi er Arnaldur með nýjar aðalpersónur (engan Erlend) og tvö sögusvið; Reykjavík á stríðsárunum og samtímann. Aðalpersónurnar gripu mig ekki sérstaklega en Arnaldur dregur upp góða mynd af Reykjavík fyrri tíma. 




Krákustelpan og Hungureldur eftir Erik Axl Sund: Þessar bækur eru fyrsta og önnur bókin í þríleiknum um Victoriu Bergman. Virkilega góðir krimmar. Ég myndi segja að söguþráðurinn sé frekar óhefðbundinn m.v. glæpasögu en hann á samt eitthvað skylt við Millennium þríleik Stieg Larsson. Það kemur ekki að sök að mínu mati. Þessar bækur héldu mér alveg og ég get ekki beðið eftir næstu bók. Eins og er þá get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta endar. 

Höfundarnir eru tveir (Jerker Eriksson og Håkan Axlander Sundquisten) en hafa tekið sér þetta sameiginlega höfundanafn. Mér finnst þeir alveg vera með þetta - alltaf þegar að ég held að ég sé búin að fatta plottið þá koma þeir með eitthvað nýtt sem kemur mér á óvart. 


The Rehearsal eftir Eleanor Catton: Þessi bók, sem er verðlaunuð í bak og fyrir, fannst mér frekar skrýtin. Ekki endilega leiðinleg en skrýtin. Ég er ennþá að velta fyrir mér um hvað hún var. Þegar ég var búin að lesa endirinn varð ég hálf rugluð. Mér fannst bókin ekki vera búin. Það er vika síðan ég kláraði hana og ég hugsa enn til hennar af og til. Um hvað var hún? 






Arabella eftir Georgette Heyer: Ef ykkur langar að lesa eitthvað sem svipar mjög til Pride and Prejudice þá er Arabella málið fyrir ykkur... England árið 1817, tvær heillandi aðalpersónur (fátæk ung, skemmtileg stúlka og ríkur myndarlegur maður), misskilningur í samskiptum og góður endir. Austen fannst þetta gott plott og það fannst Georgette Heyer líka - bara 130 árum seinna en Austen. Ekkert mjög frumleg...

Þetta er ein af bókunum sem Goodreads ráðlagði mér að lesa, með hliðsjón af því hvað ég hef lesið áður, og ég sé svo sem ekkert eftir því að hafa farið eftir þeim ágætu ráðleggingum. Arabella er ágætis afþreying. Bókin er sennilega aðeins auðveldari aflestrar fyrir þá sem eru að byrja að lesa svona bækur en bækurnar eftir Austen sjálfa þar sem hún er skrifuð aðeins seinna.

Sunday, December 22, 2013

Goodreads / Neverwhere

Ég er alltaf að leita að góðum fantasíum sem eru ekki partur af seríu. Ég er orðin agalega þreytt á að byrja að lesa einhverja seríu, vera ánægð með söguna og spennt, en fá ekki að vita hvernig sagan endar fyrr en eftir mörg ár. Ég er með nógu mikið af svona í gangi og ég nenni þessu ekki lengur.

Ég er farin að nota Goodreads síðuna mikið, bæði til að halda utan um hvað ég hef lesið og til að finna bækur sem mig langar að lesa. Það eru alls konar hjálplegir fítusar á Goodreads fyrir bókaunnendur. Ég uppgötvaði nýlega að maður getur óskað eftir bókameðmælum frá öllu samfélaginu á Goodreads. Ég prófaði að setja inn beiðni um svona meðmæli. Sagðist vera að leita að góðri fantasíu sem væri ekki partur af seríu. Ég fékk þrjár ágætis uppástungur, frá fólki sem ég þekki ekki neitt, en sem vill greinilega deila gleðinni.

Ein af uppástungunum sem ég fékk var Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég hef ekkert lesið eftir Gaiman áður en ég komst að því þegar ég fór að kynna mér hann að bíómyndin Stardust, sem ég hafði lúmskt gaman af, var gerð eftir bók Gaiman með sama nafni. Gaiman skrifaði Neverwhere upphaflega sem handrit að þáttum fyrir BBC. Þegar serían var tekin upp fannst Gaiman of miklu sleppt þannig að hann ákvað að skrifa skáldsögu byggða á handritinu líka.

Aðalpersóna Neverwhere er Richard Mayhew sem er ósköp venjulegur breskur ungur maður sem starfar í fjármálageiranum í London. Hann á frekar fáa vini og því miður mjög leiðinlega unnustu. Líf Richard breytist þegar hann hjálpar óvenjulegri ungri stúlku sem birtist skyndilega fyrir framan hann, veikburða og blóðug. Það kemur í ljós að stúlkan, Door, tilheyrir öðrum heimi, London Below eða undirheimum Lundúnaborgar, þar sem  er (nánast) engin lög og regla og galdrar o.fl. eru enn við lýði. Richard á ekki um aðra kosti að velja en að slæpast í för með Door í London Below og lendir í ýmsum háska. 

Ég hafði gaman af Neverwhere. Það eru margar skemmtilegar persónur í sögunni, aðstoðarmaður Door, the Marquis de Carabas, er háll sem áll og leigumorðingjarnir Mr. Croup og Mr. Vandemar eru algjör viðbjóður - á spaugilegan hátt. Richard sjálfur er mjög breskur og hálfgerður auli en mjög fyndinn sem slíkur. Hann fær svo að þroskast þegar líður á söguna. Húmor Gaiman höfðaði vel til mín og þó að Neverwhere sé ekki gamansaga í grunninn þá hló ég oft upphátt við lesturinn. Nokkur dæmi:
“There are four simple ways for the observant to tell Mr. Croup and Mr. Vandemar apart: first, Mr. Vandemar is two and a half heads taller than Mr. Croup; second, Mr. Croup has eyes of a faded china blue, while Mr. Vandemar's eyes are brown; third, while Mr. Vandemar fashioned the rings he wears on his right hand out of the skulls of four ravens, Mr. Croup has no obvious jewelery; fourth, Mr. Croup likes words, while Mr. Vandemar is always hungry. Also, they look nothing at all alike.”
“What a refreshing mind you have, young man. There really is nothing quite like total ignorance, is there?”
 “Richard did not believe in angels, he never had. He was damned if he was going to start now. Still, it was much easier not to believe in something when it was not actually looking directly at you and saying your name.”
Sem sagt, ef þið hafið gaman af góðum fantasíum og breskum úrvals húmor þá mæli ég með Neverwhere. 

Sunday, December 15, 2013

Andköf og Gröfin á fjallinu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur úr flóðinu þetta árið. Annars vegar Andköf, eftir Ragnar Jónsson, og hins vegar Gröfina á fjallinu, eftir Hjorth og Rosenfeldt. Í stuttu máli þá var ég ekkert sérlega hrifin af þessum bókum en ekkert sérlega ósátt við þær heldur. Þær voru báðar lala.

Ég hafði sérstakan áhuga á Andköfum þar sem mínar heimaslóðir eru sögusvið bókarinnar. Sögurþráðurinn er í stuttu máli sá að ung kona finnst látin í Kálfshamarsvík út á Skaga. Konan hafði alist upp í Kálfshamarsvík en flutt þaðan í burtu eftir miklar hörmungar, bæði móðir hennar og lítil systir létust á dularfullan hátt á staðnum. Ari, lögreglumaður á Siglufirði, sem er aðalpersónan í sögum Ragnars, er fenginn til að koma að rannsókn málsins. 

Mér fannst sami galli á þessari bók Ragnars og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir hann (sem ég held að séu allar bækurnar hans, sjá t.d. umfjöllun hér). Hún er allt of þunn. Í upphafi bókar er lagt upp með rosalega ráðgátu og þ.a.l. býst maður við rosalegri fléttu. Þessi rosalega flétta kemur hins vegar aldrei. Gátan er eiginlega engin gáta og er allt of auðveldlega leyst - án almennilegra sönnunargagna. Niðurstaðan verður vonbrigði. Mér fannst sögusviðið líka illa nýtt en ég er kannski ekki alveg hlutlaus hvað það varðar. Andköf er samt ágætis afþreying sé maður að leita að slíku. Fljótlesin bók.

Gröfin á fjallinu er þriðja bók Hjorth og Rosenfeldt um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergmann. Áður hafa verið gefnar út hér bækurnar Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn um Sebastian, sjá mína umfjöllun hér. Maðurinn sem var ekki morðingi er að mínu mati ein besta norræna glæpasagan sem gefin hefur verið út á íslensku og því les ég samviskusamlega allar bækur sem á eftir koma.

Sagan hefst með því að fjöldagröf finnst upp á fjalli og morðdeildin, sem Sebastian starfar með, er kölluð til. Rannsóknin gengur illa til að byrja með, það reynist erfitt að bera kennsl á hin látnu og þ.a.l. að rekja slóð þeirra og morðingjans. Þá eru lögreglumennirnir og Sebastian sjálfur að glíma við
mörg persónuleg vandamál. Vegna þeirra ákveður Sebastian að yfirgefa rannsóknina, rétt eftir að hún hefst. Ég vil ekki segja of mikið um lausn málsins en ég vil þó segja að mér að mér fannst hún of keimlík söguþræðinum í Millennium bókum Stieg Larsson - sænskt samsæri. Ég er ekki nógu hrifin af samsærum.

Mér fannst Gröfin á fjallinu vera sísta bókin í seríunni hingað til. Kannski af því að Sebastian, sem er ósvífnasti og jafnframt skemmtilegasti karakterinn í bókunum, kom svo lítið að rannsókninni. Hann var fyrst og fremst að glíma við vandræði í sínu einkalífi í bókinni og er almennt mjög aumkunarverður alla bókina. Það er bara ekki jafn áhugavert ef hann er ekki samhliða að sýna hversu mikill snillingur hann er. Gröfin á fjallinu er samt engan veginn versta glæpasaga sem ég hef lesið og það er auðvitað nauðsynlegt að lesa hana ef maður er sérstakur áhugamaður um Sebastian eins og ég.

Kókostoppar

Til að taka aðeins þátt í jólabrjálæðinu þá bakaði ég kókostoppa í gær. Uppskriftina, sem ég hafði til hliðsjónar, fann ég aftan á kókosflögupokanum sem ég hafði keypt (mjög amerískur kókos úr Kosti). Ég sé ekki eftir því að hafa prófað þá uppskrift. Að öðrum kókostoppum ólöstuðum þá eru þetta bestu kókostoppar sem ég hef smakkað. Þetta var líka mjög fljótlegt. Uppskriftin er eftirfarandi og ég mæli rosalega mikið með henni.

Kókostoppar:
1 poki af Baker's Angel Flake Sweetened Coconut (fæst í Kosti, sjá mynd hér fyrir neðan)
2/3 bolli sykur
6 msk hveiti
1/2 tsk Maldon salt
4 eggjahvítur (ég var með svo lítil egg að ég þurfti að nota 5 til að deigið yrði nógu blautt)
2 tsk vanilludropar
200 g suðusúkkulaði (ca.)

1) Hitið ofninn í 160°C. Hrærið saman kókosflögur, sykur, hveiti og salt í stórri skál.
 

2) Hrærið eggjahvíturnar og vanilludropana vel saman við. Það er ágæt regla að brjóta eggin og setja í aðra skál en deigskálina fyrst. Ef eggin skyldu vera skemmd þá kemur það í veg fyrir að allt deigið eyðileggist. 

3) Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Notið matskeið til að búa til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar. 


4) Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til kökurnar eru farnar að brúnast aðeins. Takið plötuna þá úr ofninum og setjið kökurnar strax á grind til að kæla þær. 


5) Bræðið súkkulaðið þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar. Hjúpið helming af hverri köku með súkkulaði og bíðið þar til súkkulaðið kólnar.

Tuesday, November 12, 2013

Afmæliskaka Símons / Þriggja botna undrið

Símon átti afmæli fyrir nokkru (lestist: fyrir meira en mánuði síðan) og ég bakaði svaðalega köku af því tilefni. Ég blandaði saman þremur botnum, vanillubotni, súkkulaðibotni og Red Velvet og setti svo smjörkrem yfir allt saman. Mmm...


Mér fannst kakan heppnast vel og þetta kom skemmtilega út. Bæði passaði þetta ágætlega saman og var flott. Kökunni svipar kannski til regnbogakökunnar (sem sést alltaf víðar og víðar) en það sem er öðruvísi er að botnarnir eru ekki bara öðruvísi á litinn, þeir eru líka öðruvísi á bragðið. Ég náði því miður ekki nógu góðri mynd af snilldinni:


Botnauppskriftirnar komu víða að. Ég gerði eina svona bollakökuuppskrift (án súkkulaðimola) til að gera einn vanillubotn. Ég gerði hálfa svona uppskrift til að gera einn súkkulaðibotn. Svo gerði ég hálfa svona uppskrift til að gera einn Red Velvet botn. Ég neita því ekki að þetta var pínu vesen, enda voru innihaldsefnin ekki alltaf þau sömu en samt þess virði... a.m.k. svona í eitt skipti.

Smjörkremsuppskriftin var mjög hefðbundin. Mig minnir að ég hafi þurft tvöfalda svona uppskrift á þriggja laga köku (a.m.k. eina og hálfa):

Vanillusmjörkrem
250 g ósaltað smjör við stofuhita 
500 g flórsykur 
1 msk heitt vatn 
1 tsk vanilludropar

1) Hrærið smjörið á meðalhraða þangað til það er orðið vel mjúkt.

2) Bætið flórsykrinum smátt og smátt saman við og hrærið varlega eftir hverja viðbót. Notið sleikju til að skrapa af hliðunum á skálinni eftir því sem þörf er á.

3) Setjið vatnið og vanilludropana síðast saman við og hrærið.

4) Dreifið á botnana þegar þeir hafa kólnað. 

Monday, November 11, 2013

Rosie verkefnið og Maður sem heitir Ove

Ég er nýbúin að lesa tvær frábærar bækur, annars vegar Rosie verkefnið og hins vegar Maður sem heitir Ove. Sú fyrrnefnda er eftir ástralskan höfund, Graeme Simsion, en sú síðarnefnda eftir sænskan, Fredrik Backman. Ég hef ekki lesið bækur eftir þessa höfunda áður.

Bækurnar tvær eiga ýmislegt sameiginlegt. Ég myndi t.d. lýsa þeim báðum sem feel good bókum. Þá er aðalpersónan í báðum tilvikum sérvitur karlmaður. Svo hló ég oft upphátt við lestur þeirra beggja. Loks, ég myndi lýsa hvorugri þeirra sem bókmenntalegu afreki þó  skemmtilegar séu.

Rosie verkefnið fjallar um erfðafræðinginn Don Tillman. Það upplýsist fljótlega að Don er ekki alveg "venjulegur" en sterkar vísbendingar eru gefnar um að hann sé með Asperger heilkenni. Don, sem gengið hefur illa í kvennamálum, ákveður að finna sér eiginkonu. Hann velur óhefðbundna leið í því verkefni og er kannski helst hægt að segja að hann reyni að nota vísindalegar aðferðir til að ná takmarki sínu. Mér fannst sagan frábær og hló oft upphátt eins og áður sagði. Sumir hafa kvartað yfir því að sagan sé klisjukennd þegar að kemur að lýsingum á Asperger. Ég er ekki sammála því. Mér finnst sagan engan veginn gera lítið úr þeim sem eru með Asperger heldur þvert á móti. Fannst höfundurinn frekar leitast við að sýna okkur að a) það þurfa ekki allir að vera eins og b) það getur verið kostur að vera öðruvísi.

Maður sem heitir Ove er um eldri mann sem í upphafi sögu er á frekar slæmum stað í lífinu - og
vægast sagt pirraður út í allt og alla. Þegar nýir nágrannar flytja í hverfið breytist líf hans til hins betra - þó að hann sjálfur sé nú ekki sammála því í fyrstu. Við fáum svo að fylgjast með því hvernig líf Ove breytist smátt og smátt. Höfundur fléttar jafnframt baksögu Ove inn í söguþráðinn og við fáum að vita hvernig Ove varð eins og hann er. Mér fannst það vel gert - þ.e. fortíð Ove skýrir nútíð hans vel.

Það er mikið grín gert að Svíum í bókinni. Sögupersónur há endalaust stríð vegna ágreinings um Saab og Volvo (sem er mjöög fyndið), búsetufélög spila stóran sess, allir eiga að flokka ruslið sitt, velferðarkerfið gengur af göflunum o.s.frv. Ég man reyndar ekki eftir því að sögupersónur hafi borðað kjötbollur, því miður.

Ég mæli með báðum þessum bókum fyrir alla. Mér fannst Rosie verkefnið ívið betri en Maður sem heitir Ove þó að ég vilji helst ekki gera upp á milli þeirra.