Símon átti afmæli fyrir nokkru (lestist: fyrir meira en mánuði síðan) og ég bakaði svaðalega köku af því tilefni. Ég blandaði saman þremur botnum, vanillubotni, súkkulaðibotni og Red Velvet og setti svo smjörkrem yfir allt saman. Mmm...
Mér fannst kakan heppnast vel og þetta kom skemmtilega út. Bæði passaði þetta ágætlega saman og var flott. Kökunni svipar kannski til regnbogakökunnar (sem sést alltaf víðar og víðar) en það sem er öðruvísi er að botnarnir eru ekki bara öðruvísi á litinn, þeir eru líka öðruvísi á bragðið. Ég náði því miður ekki nógu góðri mynd af snilldinni:
Botnauppskriftirnar komu víða að. Ég gerði eina svona bollakökuuppskrift (án súkkulaðimola) til að gera einn vanillubotn. Ég gerði hálfa svona uppskrift til að gera einn súkkulaðibotn. Svo gerði ég hálfa svona uppskrift til að gera einn Red Velvet botn. Ég neita því ekki að þetta var pínu vesen, enda voru innihaldsefnin ekki alltaf þau sömu en samt þess virði... a.m.k. svona í eitt skipti.
Smjörkremsuppskriftin var mjög hefðbundin. Mig minnir að ég hafi þurft tvöfalda svona uppskrift á þriggja laga köku (a.m.k. eina og hálfa):
Vanillusmjörkrem
250 g ósaltað smjör við stofuhita
500 g flórsykur
1 msk heitt vatn
1 tsk vanilludropar
1) Hrærið smjörið á meðalhraða þangað til það er orðið vel mjúkt.
2) Bætið flórsykrinum smátt og smátt saman við og hrærið varlega eftir hverja viðbót. Notið sleikju til að skrapa af hliðunum á skálinni eftir því sem þörf er á.
3) Setjið vatnið og vanilludropana síðast saman við og hrærið.
4) Dreifið á botnana þegar þeir hafa kólnað.