Ég fékk aðra bók lánaða hjá yngri systur minni um daginn. Bókin heitir Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn og er jafn skringileg og nafnið ber með sér.
Sagan fjallar um Jakob sem er ósköp venjulegur bandarískur strákur. Reyndar er móðurfjölskyldan hans mjög rík og föðurafi hans mjög skrýtinn. Þessi skrýtni afi hefur í gegnum tíðina sagt Jakob ótal sögur af skrýtnum börnum sem dvöldu með honum á barnaheimili í Wales, á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Sögurnar eru bæði fallegar en líka óhugnalegar þar sem ógeðsleg skrímsli koma við sögu. Á meðan Jakob er yngri trúir hann afa sínum en eftir því sem tíminn líður, og Jakob eldist, þá á hann erfiðara með að trúa. Þegar afi Jakobs deyr, á furðulegan máta, verður hann fyrir hálfgerðu áfalli. Til að vinna úr því áfalli ákveður að hann að heimsækja barnaheimilið, sem er á eyju í Wales, og reyna að leita sannleikann uppi. Þegar hann kemur á eyjuna hins vegar er ekkert barnaheimili til staðar. Jakob áttar sig þó fljótlega á að það er ekki allt sem sýnist...
Sagan hefur notið mikillar hylli erlendis. Höfundurinn, Ransom Riggs, ætlaði upphaflega að taka saman gamlar ljósmyndir í ljósmyndabók. Ljósmyndasöfnun hans varð hins vegar til þess að þessi furðulega saga varð til. Ljósmyndirnar sem hann fann, bæði óhugnalegar, sorglegar og skrýtnar, prýða bókina og eru fléttaðar inn í söguna.
Þessi bók er ágæt. Hún er stundum "creepy", stundum spennandi en líka stundum hálf væmin. Oft fannst mér söguþráðurinn bera þess merki að höfundurinn var hálfpartinn að elta myndirnar. Hann var að láta söguna passa við þær. Þetta er sama tilfinning og ég fæ þegar ég horfi á Mamma Mia - það er of mikið gert í því að skrifa ABBA lögin inn í söguþráðinn. Ef ég á að bera Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn saman við aðrar "young adult" bækur sem ég hef lesið undanfarið, þá fannst mér Hringurinn, sem ég skrifaði um hér, t.d. mun betur skrifuð og meira spennandi.
Ég verð að taka fram að íslenska þýðingin er ekki nógu góð. Það er of mikið um fljótfærnisvillur og skrýtna málfræði.
No comments:
Post a Comment