Ég bakaði Red Velvet bollakökur um daginn. Red Velvet kökur eru uppáhaldið mitt en ég hef ekki náð fullkomnun í bollakökum ennþá. Þessar komust ansi nálægt því. Við Símon tímdum a.m.k. ekki að bjóða neinum í kaffi og átum þær allar upp til agna á innan við tveimur dögum. Uppskrift og myndir fylgja hér á eftir. Því miður nýtur rauði liturinn sín ekki / sést ekki nógu vel á myndunum.
Red Velvet bollakökur (ca. 12)
60 g ósaltað smjör við stofuhita
3/4 bolli sykur
1 egg
2 1/2 msk kakóduft
3 msk rauður matarlitur
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli "buttermilk" (setjið rúma tsk af sítrónusafa í hálft-bollamál, fyllið upp með nýmjólk og látið standa í 10 mínútur / eða notið súrmjólk)
1 bolli og 2 msk hveiti
1/2 tsk salt
1/2 matarsódi
1 1/2 tsk ljóst edik (ég nota hvítvínsedik)
1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til bollakökuform.
2) Hrærið smjör og sykur á meðalhraða í hrærivél þangað til blandan verður létt og ljós. Það ætti að taka ca. 3 mínútur. Aukið hraðann og bætið egginu við. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á og hrærið svo vel saman.
3) Blandið saman kakó, vanilludropum og rauðum matarlit í lítilli skál þannig að úr verði þykkt krem. Setjið það saman við blönduna í hrærivélinni og hrærið svo vel saman á meðalhraða. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman.
4) Minnkið hraðann og blandið helmingnum af "buttermilk" varlega saman við. Setjið svo helminginn af hveitinu saman við á sama hátt. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman. Endurtakið ferlið með restinni af "buttermilk" og hveitinu og hrærið á miklum hraða þar til blandan er slétt.
5) Minnkið hraðann og setjið saltið, matarsódann og edikið saman við. Aukið hraðann aftur og hrærið í nokkrar mínútur.
6) Skiptið deiginu á milli bollakökuforma og bakið í ca. 20 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en kremið er sett á.
Rjómaostakrem*
110 g ósaltað smjör við stofuhita
110 g philadelphia rjómaostur við stofuhita
2 1/2 bolli flórsykur
1 tsk vanilludropar
1 msk sítrónusafi
1) Athugið að það er mjög mikilvægt að bæði smjörið og rjómaosturinn séu við stofuhita. Ef svo er ekki er hægt við að kremið mistakist.
2) Hrærið smjörið í hærirvélinni á miklum hraða í nokkrar mínútur (flestar uppskriftir ráðleggja manni að nota þeytarann en mér finnst betra að nota "hræruna"- smjörið og osturinn eiga það til að skilja sig ef maður notar þeytarann).
3) Skrapið smjörið af hliðum skálarinnar með sleikju og blandið svo rjómaostinum saman við. Hrærið saman á rúmum meðalhraða. Notið sleikjuna ef þörf er á til að ná blöndunni af hliðum skálarinnar.
4) Þegar smjörið og osturinn eru vel blandaðir saman, minnkið hraðann og setjið flórsykurinn varlega saman við, smátt og smátt. Notið sleikjuna ef þörf er á.
5) Setjið vanilludropana og sítrónusafann saman við og hrærið á meðalhraða þar til kremið er orðið slétt og létt í sér.
* Þessi kremuppskrift er ætluð fyrir tólf bollakökur en helmingurinn af henni dugir mér - mér finnst betra að hafa ekki of mikið krem.
No comments:
Post a Comment