Thursday, June 27, 2013

Rigning í nóvember

Ég var að lesa bókina Rigningu í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Rigning í nóvember er fyrsta bókin sem ég les eftir Auði Övu. Af einhverjum ástæðum hefur hún farið fram hjá mér þangað til nú, sem er mjög svekkjandi því mér fannst þetta frábær bók - vel skrifuð, fyndin og skemmtileg. Ég verð að lesa fleiri bækur eftir hana sem fyrst. Margir hafa mælt með  Afleggjaranum og Undantekningunni og ég ætla að reyna að koma höndum yfir þær.

Rigning í nóvember fjallar um nýfráskilda konu sem ákveður að breyta lífi sínu, bæði meðvitað og ómeðvitað. Hún tekur að sér að hugsa um heyrnarlausan og sjónskertan son vinkonu sinnar þegar sú síðarnefnda þarf að leggjast inn á spítala. Þau tvö leggja svo af stað í ferðalag austur á land þar sem óvenju blautt veðurfar o.fl. óvænt atvik há þeim... a.m.k. til að byrja með.

Aðalpersóna sögunnar starfar sem prófarkalesari og þýðandi. Hún er mjög hæfileikarík og klár en yfirleitt hálf utan við sig. Hún lætur sig reka með straumnum og er oft fjarri raunveruleikanum. Þessi karaktereinkenni leiddu oft til spaugilegra atvika, t.d. þegar maðurinn hennar segir henni, í frekar löngu máli, að hann vilji skilja:
- Ekki lengur. Þú ættir líka að vita það með alla þína víðfeðmu þekkingu - hann segir það háðslega - að órökstudd gagnrýni hjá karlmanni er ekki fjarri dulbúinni aðdáun. Karlmenn hafa ekkert á móti kvenfólki með reynslu. Ég viðurkenni að stundum vildi ég óska að þú byggir yfir víðfeðmari reynslu á þessu sviði.
Ég hegg eftir því að hann notar tvisvar orðið víðfeðmur. Ef þetta væri próförk myndi ég ósjálfrátt strika það út í annað skiptið, án þess endilega að velta fyrir mér innihaldi textans.
Í stað þess að dvelja við tilfinningar sínar til eiginmannsins og hjónabandsins er hún víðsfjarri. Hún prófarkales eiginmann sinn frekar en að "díla" við aðstæðurnar og taka þátt í samtalinu. Hún reynir hvorki að ná honum aftur né að skammast í honum á móti. Oft fara svona lufsukarakterar í taugarnar á mér en ekki í þessari bók. Auði Övu tekst vel upp með sína aðalpersónu sem er allt í senn - symptatísk, fyndin og pirrandi.

Uppáhalds persónan mín var samt móðir aðalpersónunnar. Hún er ekki bara hin fullkomna alúðlega og umhyggjusama móðir, sem fær jafnvel gerviplöntur til að vaxa, heldur er hún líka ráðagóð og mikill spekingur: 
Eftir ferð með vinkonu sinni til Kína í fyrra er hún [móðirin] byrjuð að læra kínversku, fyrsta erlenda tungumálið á eftir dönskunni.
- Þegar ég sá hvað þeir voru margir, segir hún, fannst mér ekki annað hægt. Upp á framtíðina.
Innsæi og viska móðurinnar er þannig að hún fær mann bæði til að hugsa sig um, vera betri manneskja og hafa gaman af.

Aftast í bókinni eru uppskriftir höfundar af öllum mat og drykkjum sem nefndir eru á nafn í sögunni. Uppskriftirnar eru ekki bara gagnlegar heldur líka skemmtilegar. Einkum þótti mér fyndin uppskriftin af ódrekkandi kaffi. Hún ber vott um að höfundur hafi hugsað það mál út í gegn.

Þó að það sé kannski óþarft að taka það fram, með hliðsjón af ofangreindu, þá mæli ég með að þið lesið Rigningu í nóvember. 

Tuesday, June 25, 2013

Ekki þessi týpa

Ég var að lesa bókina Ekki þessi týpa eftir Björgu Magnúsdóttur. Sagan er frumraun höfundar í skáldsagnagerð. Í stuttu máli þá fjallar hún um fjórar vinkonur  og samskipti þeirra við hvor aðra, fjölskyldur þeirra, vinnufélaga og svo auðvitað karlmenn. Björg lætur vinkonurnar fjórar skiptast á að vera sögumenn eftir því hvað hentar söguþræðinum hverju sinni.

Ekki þessi týpa er ekki besta bók sem ég hef lesið en samt alveg ágætis afþreying. Ég þurfti aldrei að hvíla mig á henni (en það þarf ég stundum að gera þegar ég les "chick lit" bækur - þær geta verið svo yfirþyrmandi væmnar). Ekki þessi týpa var reyndar mjög fljótlesin - tók ca. kvöldstund eða svo.

Helsti gallinn við söguna er að það er allt of mikið blaður í henni. Það eru heilu blaðsíðurnar, og jafnvel kaflarnir, þar sem ekkert á sér stað nema misgáfuleg samtöl. Það voru einstaka spaugileg atriði en þau voru þó frekar vandræðaleg en spaugileg. Mér fannst höfundi takast best upp í persónusköpuninni - þegar hún leyfði manni að vita hvað persónan var að hugsa en ekki endilega hvað hún gerði eða sagði. Sýndi oft gott innsæi þá.

Annar galli við söguna er endirinn. Lokasenan í bókinni er frekar ótrúverðug og ýkt m.v. íslenskan nútíma sem sagan þó gerist í. Eftir þá senu er svo frekar snubbóttur endir. Ég varð fyrir vonbrigðum með endinn og fannst að suma þræði sögunnar hefði mátt hnýta betur. Með aðeins betri endi væri þetta miklu betri bók. 

Wednesday, June 19, 2013

Frönsk súkkulaðikaka með karamellu

Ég bakaði franska súkkulaðiköku með karamellu í tilefni af 17. júní. Mmmm nammi! Þó að ég hafi bakað hana aðeins of lengi var hún mjög góð - karamellan lyftir kökunni á hærra plan. Meira ætla ég ekki að segja um uppskriftina sem fylgir hér á eftir.





Frönsk súkkulaðikaka með karamellu
250 g suðusúkkulaði
175 g smjör
1 msk fínmalað espressokaffiduft
2 dl sykur
4 egg
1 1/2 tsk vanillusykur
1/2 lyftiduft
1/2 dl hveiti

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til 24 cm/10 tommu form (eftir því hvað þið eigið) og smyrjið.

2) Brjótið súkkulaðið í litla bita og setjið í pott ásamt smjörinu og kaffinu. Bræðið saman við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.

2) Hrærið eggjum og sykri saman í skál. Setjið saman við súkkulaðiblönduna þegar hún hefur kólnað og hrærið saman þar til blandan verður slétt.

3) Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman í annarri skál og sigtið svo ofan í súkkulaðiblönduna. Hrærið saman þar til blandan verður slétt.

4) Setjið blönduna í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 45-55 mínútur (ég hugsa að það dugi að baka kökuna í 45 mínútur ef þið eruð með 10 tommu form eins og ég notaði). Kælið aðeins eftir bakstur.
 

Karamella
1 poki af Góu kúlum
1/2 dl rjómi
smá Maldon salt

1) Setjið kúlurnar, rjómann og saltið í pott og bræðið saman við vægan hita. Hrærið reglulega í á meðan blandan bráðnar saman.

2) Kælið karamelluna aðeins en samt ekki of lengi því þá verður hún of þykk. Takið kökuna úr forminu og hellið karamellunni yfir hana. Dreifið úr henni með sleikju ef þörf er á (og hafið hraðar hendur því hún er fljót að kælast á þessu stigi).

3) Berið fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum. Njótið!

Monday, June 17, 2013

Red Velvet bollakökur

Ég bakaði Red Velvet bollakökur um daginn. Red Velvet kökur eru uppáhaldið mitt en ég hef ekki náð fullkomnun í bollakökum ennþá. Þessar komust ansi nálægt því. Við Símon tímdum a.m.k. ekki að bjóða neinum í kaffi og átum þær allar upp til agna á innan við tveimur dögum. Uppskrift og myndir fylgja hér á eftir. Því miður nýtur rauði liturinn sín ekki / sést ekki nógu vel á myndunum.


Red Velvet bollakökur (ca. 12)
60 g ósaltað smjör við stofuhita
3/4 bolli sykur
1 egg
2 1/2 msk kakóduft
3 msk rauður matarlitur
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli "buttermilk" (setjið rúma tsk af sítrónusafa í hálft-bollamál, fyllið upp með nýmjólk og látið standa í 10 mínútur / eða notið súrmjólk)
1 bolli og 2 msk hveiti
1/2 tsk salt
1/2 matarsódi
1 1/2 tsk ljóst edik (ég nota hvítvínsedik)

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til bollakökuform.

2) Hrærið smjör og sykur á meðalhraða í hrærivél þangað til blandan verður létt og ljós. Það ætti að taka ca. 3 mínútur. Aukið hraðann og bætið egginu við. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á og hrærið svo vel saman.

3) Blandið saman kakó, vanilludropum og rauðum matarlit í lítilli skál þannig að úr verði þykkt krem. Setjið það saman við blönduna í hrærivélinni og hrærið svo vel saman á meðalhraða. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman.

4) Minnkið hraðann og blandið helmingnum af "buttermilk" varlega saman við. Setjið svo helminginn af hveitinu saman við á sama hátt. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman. Endurtakið ferlið með restinni af "buttermilk" og hveitinu og hrærið á miklum hraða þar til blandan er slétt.

5) Minnkið hraðann og setjið saltið, matarsódann og edikið saman við. Aukið hraðann aftur og hrærið í nokkrar mínútur. 

6) Skiptið deiginu á milli bollakökuforma og bakið í ca. 20 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en kremið er sett á.
 

Rjómaostakrem*
110 g ósaltað smjör við stofuhita
110 g philadelphia rjómaostur við stofuhita
2 1/2 bolli flórsykur
1 tsk vanilludropar
1 msk sítrónusafi

1) Athugið að það er mjög mikilvægt að bæði smjörið og rjómaosturinn séu við stofuhita. Ef svo er ekki er hægt við að kremið mistakist.

2) Hrærið smjörið í hærirvélinni á miklum hraða í nokkrar mínútur (flestar uppskriftir ráðleggja manni að nota þeytarann en mér finnst betra að nota "hræruna"- smjörið og osturinn eiga það til að skilja sig ef maður notar þeytarann).  

3) Skrapið smjörið af hliðum skálarinnar með sleikju og blandið svo rjómaostinum saman við. Hrærið saman á rúmum meðalhraða. Notið sleikjuna ef þörf er á til að ná blöndunni af hliðum skálarinnar.

4) Þegar smjörið og osturinn eru vel blandaðir saman, minnkið hraðann og setjið flórsykurinn varlega saman við, smátt og smátt. Notið sleikjuna ef þörf er á.

5) Setjið vanilludropana og sítrónusafann saman við og hrærið á meðalhraða þar til kremið er orðið slétt og létt í sér. 


* Þessi kremuppskrift er ætluð fyrir tólf bollakökur en helmingurinn af henni dugir mér - mér finnst betra að hafa ekki of mikið krem.