Friday, July 5, 2013

Djöflatindur

Ég hef nýlokið við bókina Djöflatind eftir Deon Meyer, suður-afrískan höfund, og hún er með betri glæpasögum sem ég hef lesið undanfarið.

Sagan gerist í Höfðaborg í Suður-Afríku og er aðallega sögð frá sjónarhorni rannsóknar-lögreglumannsins og alkóhólistans Benny Griessel sem fær afar erfitt mál til úrslausnar - að finna raðmorðingja sem drepur aðeins barnaníðinga. Málið er ekki bara flókið vegna þess að vísbendingar eru fáar heldur einnig vegna þess að morðinginn verður nokkuð vinsæll. Margir telja hann vinna þarft verk. Rannsóknin fær svo snöggan endi þegar lögreglumenn leiða morðingjann í gildru en ekki er allt sem sýnist...

Benny er ekki eini sögumaðurinn því þeir eru tveir í viðbót, morðinginn sjálfur og vændiskonan Christine. Saga þeirrar síðarnefndu fléttast smátt og smátt inn í söguna - á vel gerðan hátt.
 
Sagan er frekar spennandi. Maður fær ekki aðeins að fylgjast með þessu eina tiltekna máli heldur einnig persónulegum erfiðleikum Benny, morðingjans og Christine. Benny tekst á við alkóhólisma, og þá staðreynd að konan hans hefur hent honum út (klassískt), Christine stríðir við kúnnana og erfiða fortíð og morðinginn við missi barns. Sagan er því mjög fjölbreytt en þrátt fyrir alla vandamálasúpuna er hún ekki langdregin eða erfið aflestrar.

Mér fannst einnig mjög áhugavert að lesa um suður-afrískt samfélag - fá innsýn í stéttaskiptinguna, allar öryggisráðstafanir og eftirlitið (sem þykir eðlilegt) og kynþáttamismunina - sem er nú ekki bara neikvæð heldur líka jákvæð. Ég sá viðtal við höfundinn í Kiljunni fyrir ekki svo löngu og þá vildi hann meina að suður-afrískt samfélag væri ekkert hættulegra en almennt gengur og gerist (ef ég man rétt). Það var ekki tilfinningin sem ég fékk þegar ég las þessa bók, sbr. allar öryggisgirðingarnar og eftirlitið sem viðgengst í betri hverfum Höfðaborgar. Það virðist t.d. ekki þykja eðlilegt að svartir menn séu á vappi í "hvítum hverfum" - ef svo ber undir eru allir á varðbergi.

Ég mæli með Djöflatindi. Ágætis krimmi til að lesa í sumarfríinu.

No comments:

Post a Comment