Saturday, April 20, 2013

The Left Hand of Darkness

Ég var að klára The Left Hand of Darkness eftir Ursula K. Le Guin. Le Guin er frekar þekktur sci-fi höfundur. Hún skrifaði The Left Hand of Darkness og gaf út árið 1969. Á þeim tíma þótti bókin vera groundbreaking - ekki bara útaf sögunni sjálfri og sci-fi þemanu heldur af því að hún þótti mjög feminísk. Sagan telst nú til klassískra sci-fi bókmennta.

Sagan segir frá einum sendiboða  Ekumen. Ekumen er bandalag þjóða, frá ýmsum plánetum, sem byggir á þeirri grundvallarhugsun að mannkynið eigi að deila þekkingu sinni og breiða út til sem flestra. Sendiboðinn, Genly Ai, er staddur á plánetu sem Ekumen hefur gefið nafnið Winter (af því þar er alltaf vetur) en heitir raunverulega Gethen. Hlutverk Genly er að fá Gethen til að ganga til liðs við Ekumen. Það sem er sérstakt við íbúa Gethen er að þeir eru bæði hvorugkyn og tvíkynja. Meiri hluta tímans eru þeir hvorugkyn en einu sinni í mánuði fara þeir í kemmer í nokkra daga. Í kemmer geta þeir orðið annað hvort kvenkyn eða karlkyn og getið börn. 

Genly mætir ýmsum fordómum á Gethen og jafnframt skilningsleysi. Bæði á hann erfitt með að skilja hvernig samfélagið á Gethen virkar (samskiptareglurnar eru mjög flóknar) og íbúar Gethen eiga erfitt með að skilja hlutverk hans og tilgang Ekumen. Þar sem Genly er alltaf karlkyns álíta margir á Gethen að hann sé einhvers konar öfuguggi eða pervert. Genly heimsækir tvö lönd á Gethen, Karhide og Orgoreyn. Karhide er konungsríki, stjórnað af brjáluðum kóngi, en Orgoreyn er  hálfgert kommúnistaríki sem er stjórnað af 33 misspiltum commensals. Genly, fær aðstoð frá einum íbúa Gethen, forsætisráðherra Karhide, Estraven. Með aðstoð hans tekst Genly að hafa áhrif á íbúa Gethen en hann lendir í mjög háskalegum ævintýrum áður.

Fyrri hluti sögunnar fannst mér mjög þungur aflestrar. Það var lítið að gerast en voðalega margt sem maður þurfti að setja sig inn í varðandi það hvernig samfélögin á Gethen ganga fyrir sig. Sagan nær hins vegar flugi þegar líður á. Höfundi tekst einkar vel að skrifa um einstakt samband Genly og Estraven og hvernig það þróast.

The Left Hand of Darkness fær mann aðeins til að hugsa. Ég myndi segja að hún ætti næstum jafn mikið erindi nú árið 2013 og hún gerði árið 1969. Þó að margt hafi breyst til hins betra eru hefðbundin kynjahlutverk samt mjög áberandi. Bókin fær mann a.m.k. til að hugsa um hvernig heimurinn væri án þeirra - sem er hollt.

No comments:

Post a Comment